Akrýl á striga – 70×70 cm – selt.
Vinsamlegast hafið samband ef áhugi er fyrir hendi á því að panta eftirprent eða frumverk í svipuðum dúr með eigin litavali. Eftirprent eru nú fáanleg í stærð 40×40 cm.
The Incredible Machine / Mögnuð maskína varð til hægt og rólega á nokkrum vikum í aðdraganda og yfir hátíðarnar 2021-2022. Við verkið var dundað í heilmikilli hugarró undir áhrifum og innblæstri frá Wassily Kandinsky sem oft er kallaður faðir abstakt listarinnar. Hann sá tónlist í litum og liti í tónum. Hann tengdi líka ákveðna liti við ákveðin form.
Þess má til gamans geta að fólk sér ýmislegt í þessu verki. Það virðist kveikja í ímyndunaraflinu og lagar mig að leyfa umsögnum fólks að fljóta hér með.
Mínum heittelskaða, sem fylgdist með sköpunarferlinu, fannst verkið minna á fyrirbæri sem kallast The Incredible Machine og þannig er heiti verksins tilkomið. Hann sá líka pendúl og töfrasprota í verkinu.
Fimm ára gutti kom í heimsókn í Listasmiðjuna og sagði “Vá! Þetta er svona eins og geimskip sem aldrei lendir!” – líklega átti hann við gervihnött. Ellefu ára systir hans sá töfrasprota.
Þegar verkið var birt fulltilbúið á veraldarvefnum komu eftirfarandi athugasemdir:
“Ég sé víkingaskip, eldflaug, risakross eins og er í Belfast … og margt annað.”
“Ég sé mikla gleði og tónlist í himingeimnum þar sem margt fallegt er að gerast.”
“Einhver stakk stórri nál á kaf í stillimyndina á sjónvarpinu og splundraði henni. Formið stungið á hol en skapast um leið ný form.”
“Ég sé aðallega tónlist. Tónsproti, nótur, hnettir og vegir. Túnglskinssónatan?”