Listamaðurinn í sínu náttúrulega umhverfi

Ég hóf lífsferðalagið á Húsavík við Skjálfanda í ágústmánuði árið 1972, en vissi snemma að ég ætlaði mér út um allan heim og hef alla tíð verið mikið á ferð og flugi. Á ákveðnu tímabili á fullorðinsárum þótti mér mikilvægt að leggja mitt af mörkum til samfélagsins og tók þátt í hagsmunabaráttu fyrir náttúru Íslands og síðar, í kjölfar efnahagshruns, fyrir heimili landsins. Með mikla orku, frumkvæði og kærleika til samfélagsins fór ég auk þess bæði í forsetaframboð og þingframboð.

Í mínu nýja lífi veit ég þó ekkert betra en að elska og skapa. Skapa og elska, elska og skapa.

Þau ýttu við mér, ástin mín og listagyðjan. Þau hvöttu mig til að leika mér að litum þar til ég tók ákvörðun um að verða við ósk þeirra um að prófa, bara prófa, að mála eina litla mynd. Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá gerði ég það kannski svolítið til að friða þau og sýna þeim að ég kynni ekkert að mála. En ég kom okkur öllum á óvart, kannski einna helst sjálfri mér, því nákvæmlega svona vaknaði listsköpunin í mér aftur eftir langan og djúpan svefn. Þetta gerðist á mjög hamingjuríku tímabili sem kom eftir langt og erfitt lífsskeið.

Þvílík gleði sem vaknaði þegar ég uppgötvaði að ég elska að mála. Ég elska það svo mikið að ég vil helst mála á hverjum degi. Ég gat einfaldlega ekki stoppað eftir þessa einu mynd, ég hélt áfram að mála hverja myndina á fætur annarri og upplifði eins konar endurfæðingu við þessa upplifun. Endurfæðingin bar með sér djúpt og innilegt þakklæti frá innsta kjarna sálarinnar – mér fannst ég raunverulega geta fundið þakklætið flæða um mig alla þannig að hver einasta fruma innra með mér upplifði þakklætið.

Já, skaparinn vaknaði til lífsins og með honum innileg, einlæg og barnsleg gleði. Hamingja sem ég vissi ekki að ég ætti til, hamingja sem ég á erfitt með að lýsa með orðum því mér finnst ekkert tungumál ná almennilega utan um hana. Stundum líður mér þannig að eitthvað myndi deyja innra með mér ef ég hætti að mála eða gæti það ekki lengur einhverra hluta vegna. Sú tilhugsun vekur með mér djúpstæða sorg. Það er tilfinningaþrungin tilvera að hleypa skaparanum á stökk.

Þannig var að ég dundaði mér mikið við að teikna á æskuárum og stefndi á myndlistarnám, en svo gerðist eitthvað sem fékk mig til að leggja alla listsköpun á hilluna þar til hún sprakk aftur fram með þessum óvænta hætti. Ég verð að viðurkenna að ég kom sjálfri mér verulega á óvart og ákvað að nálgast sköpunina með því einfaldlega að prófa mig áfram með ýmsum hætti og kannski einna helst með því að leyfa mér að flæða og njóta. Flæðið er kannski svolítið eins og misjafnlega straumhörð á – en með því að leyfa það í stað þess að byggja stíflur, þá kemur stöðugt meira flæði. Ég leyfi því þessu stöðuga flæði ásamt gleðinni, þakklætinu og gríðarlega sterkri þörfinni að þróa minn innri listamann.

Ég sæki mér þekkingu og innblástur frá ýmsum listamönnum, viðfangsefnum, eigin hugarheimi og umhverfi sem er gnægtarbrunnur fyrir hið listræna sköpunarflæði. Ég er einstaklega heilluð af ýmsum listamönnum frá Bauhaus tímabilinu á fyrri part síðustu aldar. Frumkvæðið og krafturinn sem einkenndi Bauhaus hreyfinguna breytti því hvernig fólk leit á listsköpun. Ég elska tímaleysið sem felst í geómetríunni og fyrir mér felst alheimssannleikurinn bæði í kærleikanum sem og í tíðni og bylgjum og kosmísku samhengi vitundarinnar við þau fyrirbæri. Ég hef virkilega gaman að því að lauma tilvísunum frá fornum menningarheimum í verkin mín og ég leitast við að láta þau leika við augu áhorfandans þannig að ímyndunaraflið fari á flug og veki spurningar. Ég fæ útrás fyrir tilraunastarfsemina og prófa mig áfram með mismunandi tækni og áhöld í litlu listasmiðjunni sem ég deili með ástinni minni í Suðurhlíðum Kópavogs. Hann dregur fram töfrandi tónlist, ég magnaða myndlist og stundum sköpum við saman seiðandi sönglagatexta.

Hafa samband

Sendið fyrirspurnir á info@andreaolafs.is eða fyllið út formið: