Góðar viðtökur með dúndurstarti

Andrea Ólafs opnaði sína fyrstu einkasýningu í Gallerý Grásteini á Menningarnótt. Viðtökur fólks fóru langt fram úr væntingum listamannsins, hundruðir manna heimsóttu sýninguna og meirihluti verkanna seldust á fyrstu tveimur klukkutímunum. Sýningin mun standa til 30. ágúst svo enn er tækifæri að ná sér í verk frá þessu fyrsta tímabili listsköpunar í lífi nýs listamanns.

Andrea segir listsköpunina vera botnlausan brunn af gleði og með henni sé endalaust flæði af hugmyndum og sköpunarkrafti sem hún vonar að henni takist að koma til skila og verði með henni áfram. Fyrir það er hún endalaust þakklát, hún hefur nú alfarið tileinkað sér myndlistinni og tekið ákvörðun um að vinna fyrir listagyðjuna svo lengi sem sköpunarkrafturinn er stilltur inn á rétta bylgjulengd og lifir með henni.

Margir komu að máli við Andreu til að tjá hrifningu sína af listsköpuninni. Andrea segist hafa mikla trú á hugmyndum meistaranna, Wassily Kandinsky sem sagði að litir væru afl sem hefðu bein áhrif á sálina og Albert Einstein sem sagði að sköpunarkrafturinn væri smitandi og maður ætti að smita aðra. Takist listamönnum að hafa áhrif á fólk með þessum hætti, hrífa og smita, þá er mikið unnið því slík áhrif eru stórar gjafir á báða bóga.